Grunnavíkurferð á jeppum árið 1975
GRUNNAVÍKURFERÐIN 1975
Garðar Sigurðsson skráði.
Dag einn hitti ég Sigfús Kristjánsson tollvörð sem búið hafði þá í Keflavík um áraraðir, en hann er ættaður úr Jökulfjörðum og hafði búið lengi í Grunnavík áður hann flutti á Suðurnesin. Við tókum tal saman og fórum að ræða um æskuslóðir hans sem svo mikill ævintýrablær ríkti yfir. Sigfúsi var vel kunnugt um að ég og félagar mínir höfðu undanfarin ár ferðast mikið um hálendi Íslands, sem þá hafði verið og var enn tiltölulega lítt kannað. Færði hann þá í tal við mig hvort að við hefðum ekki áhuga á að reyna að verða fyrstir manna til að komast á bílum til Grunnavíkur. Við ræddum þetta fram og til baka og þegar Sigfús bauðst til þess að koma með sem leiðsögumaður fór þetta að hljóma afar freistandi.
Hann sagði jafnframt að þetta yrði erfitt því að heiðar sem þyrfti að fara yfir væri mjög grýttar og grófar yfirferðar. Ég sagði honum að ég myndi kanna þetta nánar og þá einnig hvort að einhver eða einhverjir ferðafélaga minna hefðu áhuga á að gera þessa tilraun með mér.
Hugsunin um þetta sótti mjög á mig næstu daga og færði ég þessa hugmynd í tal við nokkra félaga mína en mönnum sýndist mjög misjafnt um hana. Þetta hafði ekki áður verið reynt eftir því sem við best vissum en það jók aðeins á spennuna hjá mér og gerði hugmyndina enn eftirsóknarverðari. Á þessum tíma átti ég fjórhjóladrifinn Chevrolet Suburban bíl af árgerð 1970. Hann var frekar langur og var á dekkjum af stærðinni 750x16 og voru þau á þeim tíma með stærstu jeppadekkjum sem völ var á. Í honum var 8 strokka bensínvél, auka eldsneytisgeymir og einnig var á honum dráttarspil. Fjarskifti voru þá eingöngu í gegnum SSB talstöðvar en með þeim mátti ná sambandi við allar strandstöðvar landsins ásamt Gufunes radio í Reykjavík. Var minn bíll búinn slíkri talstöð.
Eftir nokkrar umræður við ferðafélaga mína ákváðu þrír þeirra að slá til og gera þessa tilraun. Þeir voru, Ragnar Eðvaldsson bakarameistari ásamt eiginkonu sinni Ásdísi Þorsteinsdóttur og voru þau einnig á Chevrolet Suburban en af árgerð 1974, en sú bifreið var einnig búin SSB talstöð.
Stefán Björnsson slökkviliðsmaður og hans kona Anna Steina Þorsteinsdóttir en þeirra farartæki var Chevrolet Blazer af árgerð 1972 og Gunnar Garðarsson útgerðarmaður ásamt Sveini Jakobssyni smið sem var hans aðstoðarmaður, en þeir óku einnig á Chevrolet Blazer en af árgerð 1970.
Með mér í bifreið voru félagi minn Hrafn Sveinbjörnsson og Sigfús Kristjánsson, leiðsögumaður okkar. Allar bifreiðarnar voru á sömu dekkjastærð og ég, 750x16. Allt voru þetta kraftmiklir og vel útbúnir bílar á þessa tíma mælikvarða og þetta fólk allt harðduglegt og vant ferðafólk.
Ákveðið var að leggja skyldi upp eftir vinnu á miðvikudegi og miða að því að vera komin til baka til Keflavíkur ekki síðar en á mánudagsmorgni.
Þann 20 ágúst 1975 lögðum við svo af stað og ókum sem leið liggur vestur í Bjarkarlund þar sem við eyddum fyrstu nóttinni.
Daginn eftir var haldið rakleiðis yfir Þorskafjarðarheiði og niður í Langadal í Ísafjarðardjúpi að bænum Kirkjubóli, því að þar var síðasti staður til að taka eldsneyti eftir því sem við best vissum.Til gamans má geta þess að skömmu eftir að dæling eldsneytis á bílana hófst fór rafmagnið af bensíndælunum og var þá ekki um annað að ræða en að dæla með handafli það sem eftir var og það tók nú sinn tíma.Þaðan var haldið að bænum Bæjum á Snjaæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi og heilsað upp á bóndann þar, Pál Jóhannesson sem Sigfús þekkti að sjálfsögðu persónulega. Hann var mjög forvitinn um ferð okkar og bauðst til að fara með okkur fyrsta spölin upp á fjallið til að sjá hvernig okkur gengi.Upp Unaðdsdalinn þaðan sem við lögðum upp lá jeppaslóð sem beygði fljótlega inn í annan dal sem heitir Rjúkandisdalur, en hvarf svo allt í einu snögglega ofarlega í dalnum.Upphaflega hafði verið hugmynd um að hún næði lengra inn á Öldugilsheiðina og jafnvel alla leið upp að Drangajökli, en þarna var hún komin bara hluta af leiðinni. Þetta hjálpaði okkur nokkuð vel í fyrstu en þegar slóðinni lauk var ekki um annað að ræða en að leita fyrir sér um færa leið og það var einungis hægt fótgangandi.
Sigfús og Páll á Bæjum fóru í fyrstu fyrir okkur enda manna kunnugastir á þessum slóðum. Smám saman bættust fleiri í hóp leiðakönnuða og ekki löngu síðar þurfti Páll að yfirgefa hópinn og fór hann með þeim ummælum að við kæmumst hvort eð er ekki langt. Yfirferðin var mjög hæg því að við þurftum fljótlega að sneiða inn á Dalsheiðina sem er mjög grýtt, morandi í eggjagrjóti og gróf. Sigfús sagði okkur að að setja stefnuna á skarð sem heitir Dynjandisskarð því að það væri sú leið sem væri líklegust til að komast niður af fjallinu og niður í Dynjandisdalinn, norðan heiðarinnar.
Talsverður snjór var þarna ennþá frá síðasta vetri og fljótlega fundum við út að best var að færa okkur inn á snjóskafla sem lágu utan í hlíðarslökkunum og þræða þá, því að með því móti miðaði okkur alltaf eitthvað áfram og svo var minni hætta á að skemma dekk. Við settum einnig keðjur á suma bílana og með þessu móti gátum við silast áfram þó með mörgum stoppum, vegna þess að dekkin skáru sig niður í snjóinn enda voru um 30 punda loftþrýstingur í þeim, sem að á þessum tíma var það talin besta vörnin gegn því að skera og skemma dekkin. Einnig var það að í snjósköflunum var talsverður hliðarhalli svo að bílarnir skriðu alltaf út á hlið. Allir bílarninr voru með tregðulæsingum í afturdrifum en ekki gerðum við okkur almennilega grein fyrir hvort að þær hefðu áhrif til hins verra eða betra í þessu tilfelli.
Eitt sinn er ég var að fara yfir eina snjóbrúnna þá brotnaði hún allt í einu undan hægra afturhjólinu en við það kom snöggur og mikill slynkur á bílinnn. Hægra framhjólið lyftist snöggt upp með þeim afleiðingum að augablaðið í framfjöðrinni small í sundur. Þarna undir reyndist vera holklaki. Nú voru góð ráð dýr og enginn leið til að lagfæra þetta á staðnum. Var því slegið upp fundi og komist að þeirri niðurstöðu að best væri að ná sambandi í gegnum Ísafjarðar radio við Chevrolet umboðið í Reykjavík sem þá var Samband Íslenskra Samvinnufélaga og vita hvort augablaðið væri til og síðan að fá það sent með flugvél til okkar.
Er þarna var komið var farið að kvölda og snérum við okkur því strax í ná sambandi við Ísafjarðar radio sem gat gefið okkur símasamband við bifreiðaumboðið. Sem betur fer var þá komin þar bakvakt, einskonar neyðarvakt eins og hjá sumum umboðunum og fengum við samband við þann aðila hjá SÍS.
Hann lofaði að kanna málið og hafði svo samband til baka um að fjaðrablaðið væri til og við gátum þá sagt honum hverngi ætti að koma því til okkar og hvernig skyldi búið um það. Meðan við biðum aftir svari frá bakvaktarmanninum höfðum við náð í félaga okkar á Suðurnesjum, Magnús Brimar Jóhannsson sem var þá áhugaflugmaður og meðeigandi Stefáns Björnssonar í lítilli einkaflugvél og lofað hann okkur að fljúga með varahlutinn til okkar.
Eflaust hefur misjafnlega farið um fólkið sem hreiðraði um sig í bílunum, en enginn kvartaði og öll gengum ánægð til hvílu. Daginn eftir var risið árla úr rekkju og eftir að fólk hafði nært sig var aftur tekið til við að huga að framhaldi ferðarinnar. Það var ágætis veður, þurrt en skýjað og skyggni gott.
Við fórum strax handa við að ná brotnu fjöðrinni undan bílnum og taka hana í sundur og var ekki að sökum að spyrja að þar reyndist Hrafn vinur minn Sveinbjörnsson okkur manna drýgstur eins og oft áður er slík vandamál bar að höndum. Þetta tók allt sinn tíma og ekki gátu allir komist að þessari framkvæmd. Því notuður aðrir tímann í að fara fótgangandi í könnunarleiðangra um svæðið til að flýta fyrir okkur þegar komist yrði aftur af stað. Svenni Jakobs, Gunni Garðars og Sigfús voru óþreytandi að skokka um urðina í kring og voru búnir að allt að því kortleggja leiðina fyrir okkur þegar þeir komu til baka.
Strax um morguninn fengum fréttir í Ísafjarðar radio að flugvélin væri að fara í loftið og væri væntanleg fyrripart dagsins. Við fórum því að undirbúa okkur undir komu hennar því að við vissum að erfitt gæti verið að sjá, ekki stærri hluti en bíla úr lofti á svona stórri heiði. Ekki var staðsetningarbúnaði fyrir að fara og urðum við því að notast við kort og áttavita til að gefa upp staðsetningu okkar til flugmannsins.
Veður hélst enn ágætt, skýjað en skyggni gott og svo kom að því að við heyrðum í flugvélinni en sáum ekkert til hennar strax. Hljóðið nálgaðist okkur og svo sáum við til hennar en flugmennirnir voru greinilega ekki búnir að koma auga á okkur því að hún flaug framhjá, nokkuð fyrir vestan okkur.
Við reyndum að koma boðum til hennar í gegnum Ísafjarðarradio og sennilega hefur það tekist því að hún snéri fljótlega við og stefndi nú beint á okkur og hafði lækkað nokkuð flugið. Er hún nálgaðist var greinilegt að þeir höfðu séð okkur því að þeir flugu beint yfir og rugguðu vélinni til merkis um það. Síðan flaug vélin í stóran sveig og kom svo í beinni stefnu til okkar og lét sendinguna falla niður. Pakkinn lenti skammt frá bílunum og þeir félagar vinkuðu okkur um leið og þeir hækkuðu flugið og tóku stefnuna í vesturátt.
Við vorum hinir kátustu og hófumst strax handa um að setja nýja augablaðið í fjöðrina og koma henni síðan undir bílinn. Þegar því var lokið var haldið aftur af stað. Leiðin frá Unaðsdal og yfir að Dynjanda er ekki nema um 10 kílómetrar svo að ekki var yfirferðin mikil hjá okkur. Að vísu tafði óhappið með framfjöðrina okkur ansi mikið svo að vorum orðin í vafa um hvort að sá tími sem við höfðum ætlað okkur í ferðina fram og til baka nægði. Því var aftur haft samband við Ísafjörð og skrifstofu Djúpbátsins til að kanna hvort sá möguleiki væri fyrir hendi að fá Fagranesið til að sækja okkur til Grunnavíkur. Það kom í ljós að það yrði ekkert vandamál svo að við ákváðum að halda áfram.
Við höfðum þegar þarna var komið fært okkur niður á hjalla ekki mjög langt frá klettabrúninni við efstu drög Dynjandisdalsins og stefndum beint, eins og hægt var, á Dynjandisskarðið sem okkar ágætu landkönnuðir höfðu verið búnir að finna daginn áður.
Við flæktumst þarna um urð, grjót og snjó, stundum ansi nálægt klettabrúninni og leist satt að segja ekkert of vel á að ná því að komast þar niður fyrir því að mjög hátt var fram af brúninni og snarbrött hlíð þar fyrir neðan. Öðru hvoru komu við að tjörnum sem myndast höfðu úr leysingavatni og fundum fljótlega út að skárra var að fara yfir þær en að brölta framhjá. Svo kom líka stundum fyrir að ekki var önnur leið fær en að fara yfir tjarnirnar. Þegar komið var undir kvöld komum við tjörn þar sem engin leið fannst fram hjá og var því farið að kanna dýpið með því að vaða hana.
Kom í ljós að hún var þó nokkuð djúp en botn góður. Gunni Garðars fór fyrstur yfir og gekk allvel en samt fannst okkur ástæða til að hafa spotta á milli bíla þegar við hinir komu yfir. Þegar þessum áfanga lauk var farið að dimma allmjög svo að við ákváðum að taka okkur þarna næturstað og hafast aftur við í bílunum.
Enn einu sinni risum við kát og glöð úr rekkju tilbúin til að takast á við hver þau vandamál er kynnu að bíða okkar.
Við náðum loks að skarðinu og vorum svo sannarlega ekki mjög bjartsýn því að skarðið var þröngt og botninn mjög stórgrýttur og ójafn og ekki bætti úr skák að þegar því lauk tók við brattur alllangur snjóskafl sem náði alla leið niður á malarhjalla þar fyrir neðan.
Eftir heilmiklar lagfæringar og grjótburð var bíllinn hans Stebba mátaður í skarðið og virtist okkur ekki leyfa mikið af breiddinni fyrir bíla okkar Ragga sem voru eitthvað örlítið breiðari. Stebbi læddist eins hægt og hann gat niður skarðið með góðri leiðsögn á alla vegu og slapp óskaddaður í gegn en svó tók skaflinn við.
Ekki var um annað ræða en að taka stefnuna beint niður skaflinn, keyra á fullum snúning í frekar lágum gír til að halda stjórn á bílnum og reyna að ná mjúkri lendingu á hjallanum fyrir neðan.
Við krosslögðum alla fingur og tærnar líka þegar Stebbi lagði í hann. Þetta gekk mikið betur en á horfðist og hann náði að halda stjórn á bílnum í nokkuð beinni línu niður skaflinn og náði góðri lendingu á hjallanum. Þetta gerði eftirleikinn betri fyrir okkur hina, því að nú voru komin för í skaflinn sem gerðu okkur sem á eftir komu auðveldara að halda bílunum í réttri stefnu. Gunni Garðars fór næstur og gekk honum jafnvel og Stebba. Þegar röðin kom að okkur Ragga vandaðist málið aðeins vegna þeirra nokkru sentimetra sem Suburbanbílar okkar voru breiðari en Blazerarnir. Raggi mátaði sinn bíl fyrst en ekki tókst í fyrstu lotu að koma honum í gegn og urðum við því að reyna að losa grjót úr hamraveggjunum báðum megin skarðsins. Eftir mikið erfiði fannst okkur ástæða til að gera aðra tilraun og í þetta sinn gekk þetta, Raggi smaug í gegn og strunsaði niður skaflinn til hinna sem komnir voru á undan. Ég fór síðastur í gegn og smaug þetta á svipaðann hátt og Raggi. Þótti okkur nú að talsverðum áfanga væri náð, en þegar við horfðum til baka upp skarðið, litum við hvert á annað og sennilega öll hugsað það sama; Hvernig í ósköpunum gætum við komist þarna upp til baka, ef til þess kæmi?
Okkur fannst því að nafnið “Afglapaskarð” væri meira réttnefni á skarði þessu en Dynjandisskarð.
En það þýddi ekki að hugsa um það í bili því við vissum um hina leiðina, sem var Fagranesið svo að við litum bara fram á veginn og hófum nýja landkönnun.
Leiðin lá nú niður í Dynjandisdalinn og gátum við þrætt okkur niður með símalínunni en það var sæmileg leið eftir hlíðarhjöllum, sem við sögðum okkar á milli að væri eins og að vera komin á malbik í samanburði við það sem við vorum búin að fara yfir.
Gekk ferðin síðan snurðulítið þar til komið var að þeim stað sem tvær smáár mættust neðarlega í dalnum. Þetta voru Dynjandisá og Múladalsá en við þær og þegar komið var niður undir láglendi tóku við nokkuð blaut svæði og allmiklar mýrar sem ekki varð komist hjá að aka yfir. Þarna hófst heilmikill bardagi við þessar bleytur sem voru einnig að hluta til í gömlu túnunum frá bænum Dynjanda sem hafði verið mesta og stærsta höfuðbýlið í Jökulfjörðum í aldaraðir.
Best reyndist okkur að keyra á ferðinni yfir mestu bleyturnar og gekk það í flestum tilfellum nokkuð vel. Þó kom fyrir að einn og einn lenti all illilega á kafi í mýrinni og þá upphófst mikill mokstur og spilverk sem bar þó árangur að lokum. Í þetta fór talsvert langur tími en loksins er við náðum í gegnum þennan farartálma, þá komumst við niður á greinilegan vegslóða sem ruddur hafði verið til samgöngubóta á árunum 1955 -1959. Hann lá frá Grunnavík og inn með Jökulfjörðum allt til höfuðbýlisins Dynjanda áður en allt fór þarna í eyði árið 1962.
Eftir þetta gekk ferð okkar nokkuð snurðulaust út með strönd Jökulfjarða, fyrst framhjá samkomustað þeirra Jökulfirðinga, Flæðareyri þar sem við stoppuðum og skoðuðum okkur um. Við héldum svo áfram framhjá eyðibýlinu Höfða og linntum ekki látum þar til við nálguðumst næsta býli sem er Höfðaströnd. Frekar fórum við nú hægt yfir því að þó að þarna væri ruddur slóði þá var hann ekki sem bestur yfirferðar og því víða tafir vegna úrrennslis og svipaðra vandamála því slíkt fylgjir gjarnan slóðum sem ekki hafa notið neins viðhalds í áratugi. En þegar við nálgumst Höfðaströnd verðum við vör við mannaferðir og tökum eftir að þar eru nokkur börn að leik utan við bæinn.
Við sjáum að um leið og þau verða vör við okkur stöðva þau öll leik sinn og stara í áttina til okkar, en taka síðan á harðan sprett í átt til bæjar. Þegar við komum nær sjáum við að nokkrir fullorðnir eru komin út á hlað ásamt börnunum. Við bröltum á bílunum í gegnum hálfgert forarsvað sem varð á leið okkar rétt við bæjarhlaðið og stöðvum síðan til að heilsa upp á fólkið. Ekki veit ég hvorir voru meira undrandi, við að rekast á fólk þarna eða fólkið á staðnum að sjá þarna bíla á ferð. Á þessum árum var það ekki orðið svo algent sem síðar varð, að fyrrum ábúendur eða niðjar þeirra færu að hafa sumardvöl á yfirgefnum jörðum sínum eða forfeðra sinna, sér til afþreyjingar. En nú voru þarna til staðar afkomendur síðustu ábúenda Höfðastrandar og áttu síst á öllu von á vélknúnum faratækjum akandi í hlað á bæ sínum. Fólkið sem samanstóð mestmegnis af konum og börnum sögðu okkur jafnframt að þegar börnin komu hlaupandi inn í bæinn og sögðu að það væru bílar að koma, hefði verið heldur hressilega hastað á þau því að ekki hafði nokkur maður tekið þau trúanleg. Þarna hefðu ekki sést bílar síðan fyrir 1960. En börnin gáfu ekki sitt eftir og hættu ekki fyrr en þau gátu dregið fullorðna fólkið út á hlað svo að þau gætu séð með eigin augum hvað væri að ske.
Okkur var tekið opnum örmum og boðið til bæjar . Ekki var annað tekið í mál en að við yrðum að þiggja veitingar og þegar farið var að spjalla saman kom auðvitað í ljós að Sigfús þekkti til allra viðkomandi og að sjálfsögðu jafnframt til allra þeirra skyldmenna. Þetta varð því hin mesta skemmtun og við hin urðum margs vísari um ættir og sögu Jökulfirðinga og Grunnvíkinga. En ekki þýddi að stoppa of lengi því að við þurftum að ná til Grunnavíkur fyrir myrkur og við áttum eftir að komast yfir eina heiði sem Staðarheiði nefnist og þar vissi enginn hvernig leiðin framundan væri.
Þess má kannske til gamans geta að 17 árum eftir að þessir atburðir gerðust áttí ég ásamt eiginkonu minni ferð um þessar slóðir fótgangandi og gengum við alla þá sömu leið sem sagt er frá í þessari frásögn. Þegar við komum að Höfðaströnd hittum við aftur fyrir fólk sem reyndist að mestu vera það sama og segir hér frá. Þegar ég fór að rifja upp þessa sögu sagði ein konan við mig ”Svo það varst þú sem keyrðir yfir kartöflugarðinn minn?”
Svo ofarlega var þetta henni enn í minni.
Við héldum svo aftur af stað eftir þessar góðu og skemmtilegu móttökur og héldum okkur enn við gömlu jeppaslóðina sem var ótrúlega greinileg ennþá. Samt var eins og áður var sagt víða runnið úr henni og víða ógreinileg. Þegar á Staðarheiðina var komið var eins og gatan hefði varðveist betur og var býsna góð. Því var það að okkur miðaði bara nokkuð vel áfram og komum niður í Grunnavík vel fyrir kvöldmál.
Í þá daga voru þá flestar byggingar í Grunnavík enn að mestu leyti í þokkalegu ástandi. Við ókum inn í þorpið og staðnæmdust fyrst við kirkjuna. Þarna og víða á vestfjörðum heitir kirkjustaðurinn bara “Staður”,
Við skoðuðum kirkjuna og héldum smáfund um framhald ferðarinnar. Sigfús sagði okkur að hann hefði heimild til að útvega okkur gistingu í yfirgefnum bæ aðeins utar með víkinni þar sem að allir sem vildu gætu gist. Var því haldið aftur af stað en til að komast í næturstað urðum við að fara yfir brú á ánni sem rann niður í miðja víkina. Að sjálfsögðu heitir hún “Staðará”. Á henni var þá allþokkaleg brú sem þó var farin að láta á sjá, bæði handriðin voru þó enn á brúnni en ekki var hún mjög traustvekjandi, brúin sjálf virtist þó óskemmd. Við tókum því áhættuna á því að aka yfir hana.
Það tókst bara vel, allir komust yfir og brúin hélt. Þegar ég kom þarna næst, 17 árum seinna var brú þessi alveg horfin og ekkert að sjá nema part af nyrðri brúarstöplinum.
Því næst var stefnan sett á bæinn Naust utar við víkina þar sem ætlunin var að gista næstu nótt. Þegar þangað var komið fór Sigfús fyrstur inn og kannaði aðstæður, hann kom síðan og tjáði okkur að allt væri í stakasta lagi og fórum við við því inn til að skoða bæinn. Þarna var um að litast eins og að fólkið hefði rétt brugðið sér í næsta hús.
Öll húsgögn á sínum stað og í eldhúsi voru diskar, pottar og pönnur allt í sínum skápum, sem sagt allt eins og íbúarninr hefðu rétt skroppið út. Upp á lofti voru rúm og rúmstæði með dýnum í allt tilbúið til notkunar.
Ekki leist nú öllum samt vel á að gista þarna, sumum fannst eins og við værum að ráðast inn í einkahíbýli annarra og vildu þessvegna alveg eins halda til í bílunum eina nótt enn. Við Hrafn, Sigfús, Gunni og Svenni Jakobs hreiðruðum um okkur á svefnloftinu og létum fara vel um okkur.
Við notuðum samt öll aðstöðuna til að elda dýrindis máltíð um kvöldið og nutum þess að hafa svona góða og sérkennilega aðstöðu. Sigfús hafði margt að segja um líf og starf þess fólks sem þar hafði búið og jafnframt um æsku sína og uppvaxtarár í Grunnavík. Áttum við þarna mjög skemmtilegt og notalegt kvöld
Ekki var laust við að sumir okkar sem sváfu inn í bæjarhúsunum yrðu varir við einhverja ókyrrð um nóttina og spunnust um það talsverðar umræður daginn eftir.
Daginn eftir sem var sunnudagur var veðrið enn mjög ljúft og gott. Í víkinni var blankalogn og bærðist ekki hár á höfði. Við byrjuðum á því að biðja Ísafjarðarradio að gefa okkur samband við skrifstofu Djúpbátsins til að kanna hvenær Fagranesið gæti sótt okkur og ferjað okkur yfir djúpið til Ísafjarðar.
Var okkur þá tjáð að það yrði ekki fyrr en seinnipart dagsins, eftir að Fagranesið lyki fastri áætlunarferð sinni um djúpið. Við höfðum því nokkuð góðan tíma til að litast um í Grunnuvík og notfærðum okkur óspart kunnugleika Sigfúsar um svæðið, því hann var heill hafsjór af fróðleik um fólkið og sögu þess. Við héldum síðan áleiðis að höfn þeirra Gunnvíkinga, þar sem eina bryggja staðarins var. Reyndist hún hafa látið talsvert á sjá vegna skorts á viðhaldi í áraraðir og var bryggjugólfið farið að gefa sig allmikið. Þó töldum við að enn væri hægt að leggjast að henni að við gætum ekið bílunum að skipshlið.
Undir kvöldið fengum við svo fregnir um að Fagranesið væri lagt af stað til okkar og innan tíðar birtist það svo á fullu stími inn víkina. Báturinn lagðist svo að bryggjugreyjinu og við ásamt áhöfninni tókum til við að koma bílunum um borð. Fljótlega kom í ljós að aðeins var pláss fyrir þrjá bíla á dekkinu og þá vandaðist málið því að skipstjórinn var ekki áfjáður í að taka fleiri bíla með sér en þá sem komust fyrir þar. Eftir nokkurt þóf náðist þó samkomulag um að hífa þá þrjá sem komust á dekkið um borð og sjá svo hvað hægt yrði að gera í málinu.
Var Ragga bíll tekin fyrst, síðan Stebbi og svo Gunni Garðars, þá var allta orðið fullt. Hvað átti að gera við þann fjórða? Eftir miklar bollaleggingar kom fram sú hugmynd hvort ekki væri i hægt að hafa minn bíl hangandi í bómunni yfir djúpið vegna þess hve gott var í sjóinn, blankalogn og ládauður sjór. Ég og skipstjórinn féllumst á það og var síðan hafist handa um að hífa bílinn um borð og ganga frá honum eins tryggilega og hægt var við þessar aðstæður.
Skipshöfnin kom fyrir tveimur tunnum rétt innan við borðstokkinn, eina fyrir afturhjól og aðra fyrir framhjól og síðan var bílnum slakað niður þannig að hann tyllti hjólunum vinstra megin í tunnurnar en hékk að öðru leyti í bómunni og hægri hjólin héngu bæði fyrir utan borðstokk.
Siðan var allt bundið og njörvað fast eins og tök voru á og þá vorum við tilbúin til brottferðar.
Siglingin yfir djúpið tók ekki nema um klukkustund og gekk eins og í sögu. Eins og áður sagði lék veðrið við okkur, djúpið var eins spegill yfir að líta og var ferð þessi öll hin ánægjulegasta. Er til Ísafjarðar kom var allt dótið híft upp á kajann og þegar að við höfðum gert upp okkar mál var stefnan tekin beint til Suðurnesja því að öll þurftum við að mæta til vinnu á morguninn eftir, sem við og gerðum.
En ansi held ég að það hafi verið orðnir lúnir og svefnþurfi ferðalangar sem mættu til vinnu þann mánudagsmorgun sem fylgdi á eftir.
Þannig lauk þessari fyrstu ökuferð til Grunnavíkur og Jökulfjarða árið 1975.