Bænhúsið í Furufirði

"Mest af öllu kvarta þó Strandamenn yfir erfiðleiknum og kostnaðinum við að flytja lík til greftrunar, enda er það engin furða. Það má vissulega svo að orði kveða að ómögulegt sé að flytja þungar líkkistur norðan af Ströndum að Stað í Grunnavík, einkum að vetrinum enda hefir það komið fyrir að menn hafa neyðzt til að skilja eftir líkkistur á fjöllum uppi og láta þær bíða þar svo vikum hefur skipt vegna þess að ómögulegt hefir verið að halda áfram ferðinni hríðar og ófærðar vegna..."

Þannig lýsir Jón Arnórsson bóndi á Höfðaströnd og hreppstjóri Grunnavíkurhrepps þeim erfiðu aðstæðum sem menn á Ströndum bjuggu við undir lok 19. aldar. Fyrr á öldum var ástandið betra því líklega hefur verið bænhús í Furufirði frá fornu fari og því þjónað af prestinum á Stað í Grunnavík. Furufjörður var í eyði snemma á 18. öld þegar Árni Magnússon og Páll Vídalín settu saman Jarðabók sína en í bókinni er getið um að meðan jörðin var í byggð hafi verið embættað tvisvar á ári og menn gengið til altaris. Jörðin byggðist aftur en prestsþjónusta komst ekki á heldur þurftu íbúar nú að sækja þá þjónustu til Grunnavíkur.

Það var ekki fyrr en undir lok 19. aldar sem tók að hilla undir að bænhús yrði reist að nýju í Furufirði. Árið 1894 hét viðlagasjóður Sparisjóðs Ísafjarðar því að leggja 500 kr. til bænhúss í Furufirði að því tilskyldu að húsið yrði komið upp fyrir aldarmótin. Sýslunefnd Norður-Ísafjarðarsýslu lagði til 300 kr. og á fundi bænda sem haldinn var í Furufirði veturinn 1896 var heitið 200 kr. framlagi í samskotum.

Lokið var við að reisa bænhúsið sumarið 1899 og hafði Benedikt Hermannsson bóndi í Reykjarfirði yfirumsjón með verkinu. Benedikt gaf og hjó til úr rekaviði grindina í húsið en Norðmenn sem ráku hvalveiðistöð á Meleyri í Veiðileysufirði gáfu panelklæðningu í húsið. Benedikt og Ketilríður Jóhannesdóttir kona hans gáfu klukku í bænhúsið og Benedikt smíðaði henni armböld og kom klukkunni fyrir.

Bænhúsið í Furufirði var vígt þann 2. júní 1902. Skyldi því þjónað frá Stað í Grunnavík og átti prestur að flytja þar fjórar messur að sumri en tvær að vetri. Notendur hússins áttu hins vegar að annast viðhald þess og sjá til þess að þar væru ávallt nauðsynleg áhöld til guðsþjónustu. Bændur á austurströndum greiddu til bænhússins og lítilsháttar kom af áheitum frá sveitungum. Þó hefur verið erfitt að láta enda ná saman, alla vega þegar sinna þurfti viðhald eins og sjá má á eftirfarandi yfirliti yfir rekstur bænhússins árið 1938 sem er að finna í minnisbók Árna Jónssonar, bónda í Furufirði:

 

Tekjur

 

    

Gjöld

 

Kirkjugjald af 47 m

kr.

58,75

 

Málning

kr.

34,64

Áheit G. Guðjóns

kr.

5,00

 

Vinna við málningu

kr.

14,00

Óli og Jói

kr.

2,00

 

Vísitasíulaun

kr.

15,00

Hjálmfríður

kr.

3,00

 

Brunabótagjald

kr.

6,75

Albert

kr.

1,00

 

Kerti

kr.

2,00

Samtals

kr.

69,75

 

Samtals

kr.

72,39Erfiðleikar við að koma líkum til greftrunar voru ein helstu rökin fyrir því að reisa bænhús í Furufirði. Kringum bænhúsið í Furufirði er lítill kikjurgarður lautóttur og hnjúskóttur. Hann er nú vaxinn grasi með blómstrandi sóleyjum og blágresi. Girðingin er fallin en stærð garðsins er mörkuð með hornstaurum.

Flestir þeir sem létust í Grunnavíkursókn norðan Skorarheiðar eftir síðustu aldamót eru grafnir við bænhúsið. Nokkrir krossar standa upp úr gróðrinum og má þar lesa nöfn þeirra sem þar hvíla. Vitað er um nöfn felstra sem þar liggja og fá leiði óþekkt. Síðast var jaðrsett í Furufirði árið 1949.

Bænhúsið var líka notað til annarra kirkjuathafna, þar var skírt, fermt og gift. Síðustu fermingar og skýrnir áður en byggðin fór í eyði voru 1947 og 1950. Furufjörður fór í eyði sumarið 1950. Síðasti sóknarprestur byggðar norðan Skorarheiðar var sr. Jónmundur Halldórsson á Stað í Grunnavík.

Eftir að byggð lagðist af og þar til fyrrum ábúendur og afkomendur þeirra fór að dvelja yfir sumartímann í Furufirði upp úr 1970 var ekkert gert fyrir húsið og var það verulega farið að láta á sjá. Fyrir miðja síðustu öld fór fram viðgerð á bænhúsinu og var það þá bárujárnsklætt og málað. Þá mun loftið hafa verið málað blátt og á það settar gyltar stjörnur svo það líkist mest himinhvolfinu sjálfu þar sem lítill söfnuður situr undir í allri sinni smæð.

.