Blaðið BB á Ísafirði 1991

Síðustu göngur í Jökulfjörður

Páll Jóhannesson leitarstjóri og bóndi
Páll Jóhannesson leitarstjóri og bóndi

Helgina 7. og 8. september sl. voru síðustu fjárleitir í hinum gamla Grunnavíkurhreppi í Jökulfjörður. Páll Jóhannesson bóndi í Bæjum á Snæfjallaströnd, hefur löngum átt fé, er gengið hefur sumarlangt í grænum högum eyðibyggða Jökulfjarða. Fé þetta er að stofni til undan þrem ám, sem ættaðar voru frá Dynjanda, en faðir Páls flutti þaðan ásamt fjölskyldu sinni að Bæjum 1948. Flutti fjölskyldan bústofn sinn  með sér og var féð að norðan að mestu skorið niður smátt og smátt. Loks urðu eftir af þessum stofni þrjár ær sem Páll ól alltaf undan. Sótti þetta fé sem smalað var nú, er að meginstofni undan þessum ám. Þetta eru mjög erfiðar smalamennskur, sagði Páll í Bæjum. Við höfum verið að smala landsvæði í Jökulfjörðum,sem áður lágu undir 16 býli. Flest þeirra voru í byggð langt fram á fimmta áratug.

Hreppurinn fór endanlega í eyði 1962. Við förum í þessar leitir á bátum frá Bæjum og Ísafirði. Menn eru settir í land í Grunnavík. Þaðan er smalað inn Staðardal og yfir Staðarheiði og aðrir ganga Staðarhlíð. Síðan hittast hóparnir upp af Kollsá. Þaðan er haldið inn Sveitina, sagði Páll, og Höfðastrandadalur og Höfðadalurinn teknir í leiðinni. Nokkrir smala Dynjandisdalinn og Múladalinn og allt féð rekið í girðingu fyrir innan Dynjandisá.

Aldrei hefur þurft að sækja kindur norður yfir jökulárnar í Leirufirði. 

Annan daginn er hleypt út úr girðingunni og smalað fjallið fram að Drangajökli. Mannskapurinn kemur saman með féð inn við jökulinn. Við rekum féð síðan yfir Öldugilsheiði yfir í Unaðsdal. Páll sagði einn smalann hafa verið með skrefmæli og hafi vegalengdin sem hann hafi gengið verið 50 km. Hann gekk þó ekki lengstu leiðina. Ég botna ekkert í þessum mönnum, sem koma ár eftir ár, að hjálpa okkur í þessum feikilega erfiðu leitum, sagði Páll. Páll sagði þetta vera síðustu göngur í Jökulfjörður.