Blaðið Grettir 29.01 1894

Frá Staðareyrum
Frá Staðareyrum

Laugardaginn hinn 9. f. m. vildi enn á ný það hrapalega slys til, að bátur fórst hér á fjörðunum með 6 mönnum. Formennirnir, er reru frá Staðareyrum og voru í samlögum, voru Jón bóndi Guðmundson frá Marðareyri, 23 ára gamall, giftur ekkjunni þar fyrir 3 mánuðum, mesti efnis- og dugnaðarmaður, og Guðmundur Sigurðsson frá Höfða, einnig orðlagður dugnaðarmaður. Hásetar voru Frímann Stígsson frá Höfn, Ragúel Kristjánsson frá Marðareyri, Bjarni Guðlaugsson frá Leiru og Guðmundur Torfason frá Kjós, allir ungir og duglegir menn.

Deginum áður höfðu menn þessir ætlað í fiskiróður út undir Grænuhlíð, en vegna illviðris orðið að hverfa upp að Sléttu og gistu þar síðan aðfaranótt laugardagsins en með því að veður var þá enn verra með norðankafaldsbyl og frosti miklu,hættu þeir við róðurinn, en vildu heim á Eyrar (Staðareyrar), með því að vindur lá fremur vel á. Fóru þeir frá Sléttu um kl. 12 á laugardaginn og hafa sjálfsagt farist á þeirri leið á siglingu. það má með sanni segja, að Grunnavíkurhreppi eigi ekki úr að aka, þar sem svo að segja árlega sópast í sjóinn fleiri og færri hinna bestu, nýtustu og efnilegustu manna þeirrar sveitar.  

Það er að auðsætt, hversu sorgartilfelli þetta hrífur hina áður mæddu valinkunnu ekkju, Hansínu Tómasdóttir á Marðareyri, sem hefir fyrir mikilli fjölskyldu að sjá, einkum þegar litið er til þess, að tæp 3 ár eru liðin, síðan hún var þess sjónarvottur, er fyrri maður hennar drukknaði rétt fram undan bænum á Marðareyri, án þess að nokkur björgun væri möguleg.