Útsaumur o.fl.

Heimildarmaður: Guðrún Jakobsdóttir

Ég undirrituð á í fórum mínum slitur af gömlu söðuláklæði. Sá eigandi sem ég fyrst veit um hét Matthildur Giteonsdóttir fædd 31. janúar 1851 að Sútarabúðum í Grunnasveit, dáinn í Reykjafirði í maí 1890, maður Benedikt Hermannsson. Pjatlan er nú 50 x 46 cm en því er hún ekki stærri nú að þegar amma mín Ketilríður, síðari kona Benedikts Hermannssonar kom í Reykjarfjörð var ekki annað eftir, þar var sem sé verið að nota efnið í bætur og leppa inn í skó, svo var fátæktin þá. Efnið er íslensk ull, glitofin einskefta, munstur og litur auðvitað slitið en þó ekki meir en svo að í vetur hef ég haft það að tómstundaiðju að sauma munstrið með gópilínsaum, en á það vantar.

Telji ég til hannyrða það sem unnið var að á mínu bernsku heimili vil ég byrja á að geta þess að í bernsku minni var heimilisiðnaður unninn þar flestum stundum, þeim sem ekki fóru til matargerðar eða útiverka og ef til vill kann ég ekki að greina þar nógu glöggt á milli. Hvað var heimilisiðnaður? Hvað voru hannyrðir?       Mitt bernskuheimili var mannmargt og allir skór unnir heima og fatnaður hverskonar. Það var mikil og erfið vinna til dæmis að gera leðurskó úr svokölluðu trollaraleðri. Það var þykkt og óþjált og þeir skór voru ekki bryddaðir heldur lögð snærissnúra meðfram varpinu og saumað eða varpað þétt yfir með tvöföldum togþræði auðvitað heimaunnum. En þetta leður kom faðir minn með þegar hann kom úr veri eða frá því að ganga í brún og aðstoða við eggjatöku í Hornbjargi, öllu heldur að fá að vera með í því starfi, þar var mikla matbjörg að fá.      En leðrið fékk hann þannig að skipt var á eggjum eða prjónafatnaði eins og sokkum og vettlingum við skipverja á skipum sem leituðu inn á Hornhöfn. Einnig man ég eftir frá þessum vöruskiptum svokölluðu beinakexi hörðubrauð. Svo voru gerðir skór úr selskinnum og sauðskinnsskórnir eru nú allstaðar þekktir á þessu landi.

Ég var ekki gömul þegar ég fékk að reyna að sauma saman á tá og hæl á skæðunum í skóna mína og svo að leggja niður við bryddinguna.      Það var meiri vandi að varpa skó svo vel færi, því var það amma mín Ketilríður Jóhannesdóttir sem hagræddi því.      12 ára gömul kom ég á bæinn Dynjanda á svo gatslitnum skóm að bæturnar sem áttu að vera til hlífðar stóðu út um götin. Ég bað húsmóðurina um nál og þráð. Hún léði mér nál og seimi, öllu heldur stykki af þurrkuðum sinubíld af hval og þar af var rifin tægja sem kölluð var seimi, þrælsterkur þráður, notaður við skósaum og við brókargerð. (Skinnbrækur).       Mér hefur dvalist við skósauma vegna þess að sá þáttur í þeirri mynd sem var er horfinn úr vinnuþætti heimilanna. Mamma sagði mér að ein vinnukonan sem var hjá ömmu hefði verið heilt vordægur að gera brúðarskóna en svo vel hafi þeir verið gerðir að hvergi hafi sést í þráðinn sem notaður var (á réttunni). Þeir skór voru auðvitað úr lituðu sauðskinni, bryddaðir með hvítu eltiskinni.       Ég var innan við fermingaraldur þegar ég lærði að bregða hrosshársgjarðir. Það lærði ég af gömlum manni, Jakobi Jenssyni sem stundaði þá iðju á vetrarkvöldum. Ég man nokkuð um hvernig hrosshársspuni fór fram, hef oft ætlað að reyna það verk en ekki hefur af því orðið.

Ég var barn að aldri þegar amma kenndi mér að merkja með krosssaumi. Ég byrjaði svo sem á stafaklút en lauk aldrei við hann, á ennþá það sem ég saumaði sem var einfaldasta gerð af stafrófinu. Hinsvegar man ég enn hvað ég dáðist oft af tösku sem elsta systir mín, Jóhanna, 10 árum eldri en ég, gerði úr pappa og setti á bakvið stafaklútinn sinn. Hann var saumaður með nokkrum stafagerðum og ártali, smá rósabekkur þar fyrir utan og snúra. Taskan var eins og hálfhringur í laginu með fléttuðu haldi svo hægt var að hengja hana á rúmmaran með saumadótinu í.      Sem unglingur lærði ég af henni að sauma kantarsting og flatsaum, fékk að sauma út í svæfilver og fleira.      Í mínum barnaskóla var ekki kennd handavinna, það voru aðeins fáir mánuðir í farskóla. Amma mín Ketilríður fædd 14. oktober 1868 þótti sérstaklega vel verki farin kona og vandvirk. Hún eignaðist fyrstu saumavélina sem til var í Grunnavíkurhreppi norðan Skorarheiðar. Auk þess smíðaði maður hennar Benedikt Hermannsson vefstól handa henni, það var því margur sem til hennar leitaði til að koma ull í fat. Hún kunni líka að koma mjólk í mat. Amma var mikil tóvinnukona og óf bæði vaðmál og tvistdúk eftir það að ég man til verka.      Seinast setti hún upp vef í vefstólinn sem afi smíðaði veturinn 1935-1936.

Einn fyrsti fatnaður sem ég man sérstaklega eftir frá bernsku minni voru sunnudagakjólar móður minnar og elstu systur. Kjólarnir voru úr grænu vaðmáli ofnu í vefstólnum hennar ömmu úr heimaunnum þræði og ívafi auðvitað og lituðu en útsaumsmunstur með gulu bandi voru saumuð með lykkjuspori neðst á pilsinu með nokkru millibili, einnig fremst í ermarnar og við hálsmálið að framan. Mig minnir að munstrið minnti á slaufur.      Ég man einnig frá þessum árum að móðir mín átti hvíta sparisvuntu sem í var settur bekkur með harðangursmunstri í java eins og síðar var sett í sængurver heima.       Það var það langt á milli bæja á mínum heimaslóðum að ég get raunar ekki sagt frá útsaum annarsstaðar, þó veit ég að á mínum æskuárum var töluvert um útsaum og aðra handavinnu á flestum heimilum á Ströndum.      Þó finnst mér að amma mín Ketilríður hafi löngum haft sér álit í viðgerð á fatnaði, man að henni var sendur sparifatnaður og fleira til viðgerðar ef óhöpp höfðu hent eins og brunagat eða rifið á nagla, allt var þetta hjá henni vandasöm handavinna eða hannyrðir þó ekki væri um rósasaum að ræða.

Móðir mín var einnig handlagin og vel verki farin en átti ekki margar frístundir til hannyrða á ungdómsárum mínum. En á sínum elliárum prjónaði hún mikið af laufaviðarvettlingum með rós í handabaki sem ég hef ekki orðið vör við að aðrar konur hafi gert á sama máta og þær hún og amma á undan þeim.

Á heimilum í Reykjafirði var enginn alinn upp í iðjuleysi.      Ég var orðin vel fullorðin þegar ég gerði mér grein fyrir að það hafi ekki alltaf verið fyrir að nauðsyn bæri til að af kasta því á stundinni sem við börnin vorum látin aðhafast heldur hitt það var verið að kenna okkur að vinna og nota tímann til þess en ekki í leik eða ólæti. Sunnudagar voru helgidagar með húslestri oftast fyrir hádegi og fyrir þann tíma voru ekki unnin nema nauðsynlegustu verk. Um nón var talið eðlilegt að konur sinntu tómstundaiðju og réðu því hvað þær gerðu við sinn tíma ef ekki þurfti að vinna aðkallandi og óvænt störf. Þar var þá tími til fínni handavinnu þó sérstaklega yfir vetrarmánuðina.      

 

Þó það komi ekki útsaum við ætla ég að geta þess að sunnudags húslestur var síðast lesinn á Reykjarfjarðarheimilinu 9. desember 1938 en nokkur ár þar á eftir voru lesnir Passíusálmar. Frá þessum tíma var farið að hlusta á útvarpsmessur og þá var látið óátalið að setið væri við hannyrðir meðan hlustað var og var þá jafnvel sérstakt stykki sem saumað var eða prjónað á þeim tíma.      Ég á í fórum mínum slitinn kaffidúk sem ég saumaði aðeins á þeim tíma er ég hlýddi á útvarpsmessur
frá þessum árum, efnið í þann dúk pantaði ég frá Nýju kvennablaði, það var ekki farið í kaupstað þá til að kaupa efni. Ég minnist þess einnig að um líkt leyti saumaði móðir mín út krosssaumsmunstur í hvítan poka undan haframjöli og bjó til dúk á stofuborðið, hún prjónaði líka skakka eða hyrnu er hún hlýddi á útvarpsmessurnar.      

 

Ég get ekki tíma eða aldurssett hvenær var farið að kenna stúlkubörnum útsaum. Ef til vill skýrir þessi vísa sem afi minn kvað til móður minnar ungrar nokkuð. Að lítilli pjötlu leikur hér  lippar um sinn fingur undir skeggið svarta sér  sauma grundin stingur.      Telpur fengu gjarnan pjötlu og nál með þræði þegar konurnar voru að sníða og sauma fatnað og svo voru sporin löguð smá saman þar til sporið fékk ákveðið nafn sem afturstingur, kantarstingur, krossspor, flatsaumur, gópilín eða harðangurspor þegar ofið var yfir þræði og ekki má gleyma kappmelluspori. Ég man ekki hvað ég var gömul þegar amma kenndi mér að sauma hnappagöt og reyndar okkur systrum en ég var innan við fermingaraldur. En eitt var það að hún kenndi okkur að stoppa í sokka og flíkur og það urðu strákarnir að læra líka til að geta gert við sokka og vettlinga þegar þeir færu í verið. (til róðra)      Það þekkti ég að saumað var út í spariföt eins og milliboli og skjört, blússur, kjóla og pils, var þá gjarnan saumaður gatasaumur eða venesíenst í millibolinn sem notaður var undir peysufatapeysuna.      Á stríðsárunum saumuðu stúlkur sér kjóla úr hvítum mjölpokum og blússur og skreyttu með rósamunstri eða bekk sem oft var þá saumað með mislitu áróra eða perlugarni og notað lykkjuspor (þegar garn fékkst) en munstrin bjó gjarnan einhver til. Útsaumuð sængurföt þekki ég og punthandklæði, borðdregla og eldhúsgluggatjöld, sessur. Efni í þess háttar var hægt að kaupa áteiknuð í hannyrðaverslun á ísafirði ef ferð féll og til voru krónur. Þá var það og til um 1940 og þar eftir að ef einhver átti áteiknaðan púða eða dúk að önnur fékk að draga munstrið upp á pappír, bleyta hann í olíu svo hann var gegnsær svo var munstrinu breytt lítið eða mikið og notað á fleiri stöðum.      Víst er ég á annað borð byrjuð að segja frá kem ég að því til að vera trúverðug eins og mér var kennt í uppvexti að segja frá að ég tel að eins og víða segir. Hver og einn á sína sögu og ég á einn kafla.

Svo heimildin sé sönn verð ég að byrja á byrjuninni.      

Haustið 1948 kom í réttir í Reykjafirði ær nýlega borin með gimbrarlamb sem faðir minn átti. Á stundinni fannst honum eðlilegast að lífdagar lambsins yrðu ekki fleiri og bað nærstaddan son sinn rétta sér eggjárn sem hann vísaði á en þá barst óvænt hróp frá ungri stúlku, pabbi, pabbi gerðu það ekki. Það má segja að hann hafi fleygt í mig lambinu um leið og hann sagði þú mátt þá eiga það, þú getur alið það í fjósinu og heiglað því um leið og þú mjólkar kýrnar.      Margar gjafir gaf faðir minn mér en ég get ekki fundið nokkra dýrmætari því þarna gaf hann mér líf. Þetta var upphaf þess ásetnings míns að verja arðinum frá skepnunni í eftirminnilegan grip. Efni voru á þessum árum af skornum skammti en haustið 1950 kaupi ég mér fyrir fyrsta arðinn af skepnunni svart svokallað peysufatasatín og silkigarn til að sauma mér kirtil en þá var að fá munstur. Ég náði hvergi til þess svo ég bjó það til sjálf og aðferðin var sú að ég sleit blöð af blómunum, klippti þau til, raðaði þeim saman og dró línur umhverfis. Þá var til smjörpappír sem hægt var að nota. Það tók margar tómstundir að koma þessu saman og þegar kom að því að fara að draga upp í efnið átti ég bara eina örk á stærð við þetta blað af dökkbláum kalkipappír sem illa sást í efninu. Því varð ég að taka bara eitt munstur í einu og þræða í kring.

Þar með voru blöðin fengin og þau áttu að vera græn. Ég var þá búin að vera á Laugardalsskóla svo saumaskapurinn var ekki vandamál.      En þegar kom að því að búa til nokkur blómamunstur fór ég og tíndi nokkur blóm úr bökkunum á bæjarlæknum og lagfærði þau og notaði litasamsetninguna til að sauma eftir.      Ég hafði þessa handavinnu ekki með mér þó ég færi í vinnu annarsstaðar, ég held núna að ég hafi óttast að þessi aðferð mín öll þætti flónsleg ef of margir vissu af.      Þegar ég settist að í Reykjahlíð við Mývatn haustið 1954 ákveðin í að gifta mig lét ég þó senda mér kirtilinn og lauk við að sauma hann fyrir brúðkaupið 19. mars 1955 og klæddist honum þá í fyrsta sinn.      Til gamans hef ég nú skráð þessa sögu því ég tel að þar tel ég felast lykilinn að því hvernig formæður mínar fóru að þegar þær vantaði munstur.      Og svona til uppörvunar fyrir mig sjálfa þá hafa tvær vígslubiskupsfrúr í Hólastifti klæðst þessum kirtli mínum þegar menn þeirra hafa tekið vígslu í Hóladómkirkju.      Lík ég svo þessum kafla.

                            Guðrún Jakobsdóttir