Deiliskipulagsmál í Hornstrandafriðlandi
Aðalfundur Landeigendafélags Sléttu- og Grunnavíkurhrepps sem var haldinn 26. maí 2014 sl. beindi eftirfarandi ályktun til Ísafjarðarbæjar:
Aðalfundur Landeigendafélags Sléttu og Grunnavíkurhrepps (LSG) beinir því til Ísafjarðarbæjar að hann hlutist til um að hefja gerð deiliskipulags í samvinnu við LSG í þeim byggðakjörnum í Friðlandinu sem fjölsóttastir eru af ferðamönnum. Vinna þessi skal hefjast eins fljótt og við verður komið með það að markmiði að a.m.k. drög að skipulagi liggi fyrir vorið 2015. Kostnaður við verkið greiðist af Ísafjarðarbæ.
Ísafjarðarbær hefur svarað erindu með bókun umhverfisnefndar:
Umhverfisnefnd tekur jákvætt í erindið og óskar eftir því að sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs kanni möguleika á gerð svæðisskipulags/nýtingaráætlunar (rammahluta aðalskipulags) í samstarfi við Umhverfisstofnun og landeigendur.
Bæði Bæjarins Besta og RÚV hafa birt fréttir af málinu. Í frétt RÚV er viðtal við Erling Ásgeirsson formann LSG og segir m.a.
„Ég held að það séu að verða um 40 skemmtiferðaskip sem koma núna á næstu vikum til Ísafjarðar,“ segir Erling. „Drjúgur hluti farþeganna fer í skemmtiferð um djúpið, inn í Vigur eða norður á Hesteyri. Og þar þarf að vera einhvers konar viðbúnaður til að taka á móti þeim.“
Erling segir að gróðurþekjan sé viðkvæm, enda sé sumarið aðeins um sex vikur á Hornströndum. Ef ekkert verði að gert stefni í óefni, og hætt við að svæðið breytist í drullusvað.
„Þá stefnir náttúrulega í óefni. Náttúran verður fyrir skemmdum og þá fara landeigendur og þeir sem þarna búa á sumrin að ókyrrast,“ segir Erling.