Skýrsla stjórnar fyrir tímabilið 14.11.2008 – 25.5.2009
Á fyrrgreindu tímabili voru haldnir 2 stjórnarfundir auk 1 fundar í Hornstrandanefnd á starfsárinu.
1. Aðalfundur LSG haldinn 13.11. 2008. (sjá meðf. fundargerð)
Á síðasta aðalfundi LSG sem haldinn var 13. nóvember 2008 í húsi Nýherja hf., Borgartúni 37 voru eftirtaldir kjörnir til trúnaðarstarfa :
- Erling Ásgeirsson, formaður
- Sölvi Rúnar Sólbergsson, varaformaður
- Matthildur Guðmundsdóttir, ritari
- Guðríður H Benediktsdóttir, gjaldkeri
- Magnús Reynir Guðmundsson, meðstjónandi
- Guðmundur Halldórsson. varamaður
- Jósef H Vernharðsson, varamaður
- Sigríður Gunnarsdóttir, varamaður
- Ingibjörg Ásgeirsdóttir, endurskoðandi
- Kristján Guðmundsson, endurskoðandi
- Jón Borgarsson, varaendurskoðandi
- Anna Ásgeirsdóttir, varaendurskoðandi
Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum var boðið upp á kaffiveitingar í boði
félagsins.
1. Hornstrandanefnd
Hornstrandarnefnd heyrir undir Umhverfisstofnun.
Í Hornstrandanefnd sitja. Úr stjórn LSG Matthildur Guðmundsdóttir, Guðríður Benediktsdóttir, Erling Ásgeirsson. Frá Ísafjarðarbæ Halldór Halldórsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og Andrea Harðardóttir fulltrúi Ísafjarðarbæjar Formaður nefndarinnar er Ólafur Arnar Jónsson deildarstjóri deildar nátturuvendar Umhverfisstofnunar og starfsmaður nefndarinnar er Jón Björnsson starfsmaður umhverfisstofnunar og umsjónarmaður friðlandsins á Hornströndum.
Erindi til Hornstrandanefndar
Nefndinni bárust tvö erindi til umsagnar. Annað varðar byggingu sumarhúss á Geirmundarstöðum í Fljótavík. Nefndin gaf erindinu jákvæða umsögn að uppfylltum venjubundnum skilyrðum. Hitt var um endurnýjun hluta lagna við Hornbjargsvita. Á fundi nefndarinnar 25. febrúar s.l. kynnti Jón Björnsson væntanleg störf á vegum landvarðar á komandi sumri.
Stjórnarfundur
Tveir stjórnarfundir voru haldnir á tímabilinu 9. febrúar og 19. maí. Á fundinn 9. febrúar komu landeigendur og hagsmunaaðilar úr Fljótavík og lýstu óánægju sinni með drög að Aðalskipulagi fyrir Ísafjarðarbæ 2008-2020. Þeir voru Hörður Ingólfsson og Atli Ingvarsson Atlastöðum, Edward Finnsson Tungu og Glúmstöðum, Ásmundur Guðnason Geirmundarstöðum. Gestir gerðu stjórn LSG grein fyrir sjónarmiðum sínum og voru þau innlegg í bréf formanns til formanns Umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar dags. 16 mars 2009.
2. Aðalskipulag Ísafjarðarbæjar 2008-2020.
Stjórn LSG skipaði 2 aðila, á árinu 2007, til að taka þátt í undirbúningi við gerð Aðalskipulags Ísafjarðarbæjar 2008 – 2020. Stjórnin tilnefndi úr sínum röðum þá Sölva Sólbergsson og Erling Ásgeirsson. Starfa þeir í Skipulagshópi Hornstrandasvæðis. Stjórnin lagði verulega vinnu í sína álitsgerð skrifaði m.a. á sinni tíð bréf til allara félagsmanna þar sem gerð var grein fyrir málinu og óskað eftir tillögum og athugasemdum.
Þeir Sölvi og Erling skiptu með sér verkum þannig að Sölvi sótti fundi á Ísafirði og Erling vann að undirbúningi fyrir sunnan. Haldnir voru samtals 11 vinnufundir á Ísafirði sem Sölvi sótti alla. Loka fundur hópsins var síðan haldinn 6. maí s.l. og kom þar fram að bæjarstjórn Ísafjarðar hefur afgreitt skipulagið í núverandi mynd og liggur það hjá Skipulagsstofnun til afgreiðslu. Kemur það þá augljóslega í hlut stjórnar LSG að senda inn athugasemdir vegna skipulagsins í samræmi við þau sjónarmið er ríkja innan stjórnarinnar.
Garðabæ 16.mars 2009,
Svanlaug Guðnadóttir
Form. umhverfisnefndar
Ísafjarðarbæjar.
Varðar: Drög að Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020. Athugasemd LSG o.fl.
Rétt er í upphafi að gera örlitla grein fyrir Landeigendafélagi Sléttu- og Grunnavíkurhrepps (LSG.)
Félagið er stofnað 10. mars 1973 í þeim tilgangi að gæta hagsmuna landeigenda innan friðlandsins.
Þegar í upphafi tókst mjög gott samstarf milli félagsins og þeirra yfirvalda er höfðu með friðlandið að gera, Náttúruverndar ríkisins , síðar Náttúrufræðistofnunar og enn síðar Umhverfisstofnunar og Ísafjarðarbær. Þess má glöggt sjá merki í auglýsingum um friðlandið í Stjtíð B,nr. 366/1975 og nr. 332/1985, sem undirritaðar voru af þáverandi menntamálaráðherrum að löggjafinn ætlar LSG mikilvægt hlutverk í málefnum friðlandsins, en þar segir í 9. Grein.“ Umhverfisstofnun og LSG tilnefna hvort um sig þrjá menn í samstarfsnefnd um málefni friðlandsins“. Þetta ákvæði í auglýsingu um friðlandið liggur síðan til grundvallar við stofnun Hornstrandanefndar sem fer með málefni friðlandsins innan Umhverfisstofnunar. Þar eiga sæti þrír aðilar frá LSG tveir frá Ísafjarðarbæ og einn frá Umhverfisstofnun sem er oddamaður. Ég tel að það megi með fullri sanngirni segja að stjórn LSG hafi rækt hlutverk sitt innan Hornstrandanefndar með miklum ágætum frá fyrstu tíð. Núgildandi vinnureglur varðandi byggingarleyfi í friðlandinu á Hornströndum eru t.d. gerðar og samþykktar að undirlagi félagsins. Samkomulag þar um, milli Umhverfisstofnunar, Ísafjarðarbæjar og Landeigandafélags Sléttu –og Grunnavíkurhrepps gjört í mars 2004 er almennt álitið sanngjarnt og eðlilegt af öllum þorra landeigenda og kom þeim málum sem það nær til í fastari skorður en áður hafði verið.
Stjórn LSG hefur fjallað um drög að Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020 á sínum vettvangi að undanförnu. Fyrir hönd stjórnarinnar hafa varaform. LSG Sölvi Sólbergsson og formaður LSG Erling Ásgeirsson einkum séð um samskipti við skipulagsráðgjafa. Sölvi hefur setið alla fundi í stýrihópi verkefnisins á Ísafirði. Fjallað hefur verið um málið á tveimur aðalfundum LSG og kynningarbréf var sent til allra félaga þar sem óskað var eftir ábendingum og hugmyndum um skipulagsmál í friðlandinu.
Stjórn LSG sendi síðan inn ýtarleg svör og hugmyndir við upphaf samráðsferilsins sem hefur verið leiðarljós í áframhaldandi samráðsvinnu af hálfu félagsins.
Rétt er að að taka fram að samráðsferlið og öll vinna við aðalskipulagið er að mati stjórnar LSG til mikillar fyrirmyndar og vandaðra vinnubragða og fagmennsku gætt í hvívetna en að sjálfsögðu koma upp álitamál í jafn viðamiklu verkefni og hér um ræðir. Hvað varðar friðlandið eru það einkum þrjú atriði sem stjórn LSG leggur áherslu á.
- Stjórn LSG vill árétta að samkomulag um byggingarleyfi í friðlandinu frá mars 2004 verði áfram í gildi eftir gildistöku Aðalskipulags Ísafjarðarbæjar 2008-2020. Þessar reglur voru byggðar á auglýsingu nr. 332/1985 um friðland á Hornströndum, lögum nr. 44/1999 um náttúruvernd og skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997.
Með þessu samkomulagi var tryggð ákveðin sátt meðal landeigenda. Reglurnar tryggja jafnframt aðkomu staðkunnugra að málum.
Stjórnin leggur áherslu á að núgildandi reglur hafa reynst mjög vel og því engin ástæða til að setja fram fjöldatakmarkanir sem geti haft þau áhrif að fólk vilji flýta sér að nýta þann kvóta sem yrði leyfilegur á hverjum stað.- Í drögum að aðalskipulagi í Viðauka B á bls. 158 eru hugmyndir um hámarksfjölda húsa í Fljótavík, á Atlastöðum og Geirmundarstöðum sem teljast mjög íþyngjandi fyrir landeigendur í Fljótavík og ganga þvert á yfirlýstan vilja um að eiga gott og náið samráð við landeigendur . Taka verður tillit til þess að þegar hafa verið gefin út byggingarleyfi fyrir þeim tveimur húsum sem áformað er að leyfa til viðbótar við núverandi byggð í Fljótavík. Gert er ráð fyrir að þau rísi nú á sumri komandi. Það verður því að teljast afar óheppilegt að aðrir eigendur jarðanna geti ekki í framtíðinni átt möguleika á að byggja á eignarlandi sínu. Ósk stjórnar LSG er að tillögur að hámarksfjölda húsa verði endurskoðaðar í þeim tilgangi að skapa sátt um aðalskipulagsdrögin.
Einnig leggur stjórn LSG til að landeiganda í Tungu og Glúmsstöðum í Fljótavík verði gert mögulegt að flytja byggingarrétt frá Glúmstöðum í land Tungu.
Því til rökstuðnings bendir stjórn LSG á að það getur verið til hagsbóta fyrir umhverfisvernd á svæðinu að flytja mögulega byggð á Glúmstöðum norður fyrir vatnið í land Tungu.- Stjórn LSG telur mikilvægt að skipulagsyfirvöld Ísafjarðarbæjar komi á stöðluðum vinnubrögðum við gerð deiliskipulags á þeim svæðum innan friðlandsins sem ekki hafa þegar samþykkt deiliskipulag. Stjórn LSG lýsir sig reiðubúna til samstarfs í þessum efnum.
Stjórn LSG er þeirrar skoðunar að fram komin drög að Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020 séu unnin af vandvirkni og komi til með að verða góður rammi og leiðarljós fyrir blómlega byggð og gróskumikið mannlíf á skipulagstímabilinu. Stjórnin deilir einnig þeirri skoðun að best sé að sætta mismunandi sjónarmið áður en til formlegrar auglýsingar kemur og eru ofangreindar ábendingar settar fram í þeim tilgangi. Það er jafnframt eindregin ósk stjórnar LSG að fullt tillit verði tekið til framkominna hugmynda félagsins. Fulltrúum LSG í samráðshópnum mun verða falið að fylgja málinu eftir fyrir hönd félagsins.
Með vinsemd og virðingu,
Fyrir hönd Landeigendafélags Sléttu- og Grunnavíkurhrepps.
Erling Ásgeirsson formaður,
Lynghæð 1
210 Garðabær.
erling@sense.is
Samrit:
Halldór Halldórsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæ.
Niðurlag.
Nýliðið starfsár hefur verið óvenju stutt þar sem aðalfundur 2008 var haldinn13. nóvember 2008 af ástæðum sem voru skýrðar á sinni tíð. Vinna að undirbúningi að Aðalskipulagi Ísafjarðar 2008 – 2020 hefur verið fyrirferðarmest. Nú sér fyrir endann á því verkefni.
Starfið innan Hornstrandanefndarinnar er eitt aðalverkefnið stjórnarinnar. Tvö mál komu til kasta nefndarinnar á starfsárinu. Stjórn LSG hefur nú starfað óbreytt í 5 ár. Guðríður Benediktsdóttir sem verið hefur gjaldkeri í stjórninni s.l. 5 ár hefur óskað eftir að láta af störfum og mun nýr aðili verða kosinn í hennar stað á þessum aðalfundi. Við sem eftir sitjum í stjórninni þökkum Guðríði fyrir samstarfið og vel unnin störf í þágu félagsins.
Reykjavík 25. maí 2009
Erling Ásgeirsson form. LSG