Loading...

Flotbryggjan kom á sinn stað á Hesteyri

Þriðjudaginn 12. júní fóru Sjóferðir í árlega ferð til að koma fyrir flotbryggju á Hesteyri. Flotbryggjan auðveldar farþegum að komast frá borði og um borð í báta.

Það voru þeir Hafsteinn Ingólfsson, Hermann Siegle og Jón Björnsson sem fóru í ferðina og komu flotbryggjunni fyrir. Eftir að búið var að festa bryggjuna á sínum stað tók Hafsteinn sig til og kafaði í kringum bryggjuna. Hann athugaði festingar sem halda henni í réttri stefnu og skoðaði hvort eitthvað væri á botninum við bryggjuna sem gæti valdið skemmdum á bátum.

Húsið að Kvíum verður gert upp

Skútusiglingar ehf. á Ísafirði (Borea) og eigendur Kvía í Jökulfjörðum hafa gert með sér samkomulag um að gera upp íbúðarhúsið í Kvíum. Verður boðið upp á ferðaþjónustu þar í framtíðinni þar sem hægt verður að kaupa sér m.a. gistingu. Á ferðaþjónustuhlutverkið vel við Kvíar því heimilið á Kvíum var rómað fyrir gestrisni á síðustu öld.

Nánar ›

Tæming rotþróa

Á dögunum fóru vaskir menn og tæmdu rotþrær í Hornvík. Notast var við nýjan búnað frá Gámaþjónustu Vestfjarða.

Nánar ›

Þjónusta báta sumarið 2012

Sumarið 2012 verða a.m.k. þrír sem þjónusta ferðalanga á Hornströndum.

Bjarnarnes - Borea

Sigurður Hjartarson seldi Skútusiglingum ehf. (Borea) Bjarnarnesið (Sjótaxa). Bjarnarnesið verður í áætlunarsiglingum frá Bolungarvík um Jökulfirði tvisvar á dag 4 daga vikunnar. Einnig verður siglt í Aðalvík. Yfirlit yfir áætlunarferðir og verð er á vef Vesturferða.

Freydís ÍS og Sigmar ÍS

Fraktflutningar frá Bolungarvík verða í boði á Freydísi ÍS sem er með mikið pláss á dekki og í lest, hægt er að hífa hluti allt að 500 kg. Möguleiki er á að Sigmar ÍS verði í trússi og farþegaflutningum, þ.e. ef hann verður ekki seldur. Sigmar tekur 10 farþega. Frekari upplýsingar eru á á freydis.is

Sjóferðir Hafsteins og Kiddýjar

Sjóferðir H&K gera út frá Ísafirði og sigla í Jökulfirði, Aðalvík, Hornvík og fleiri staði. Sjóferðir H&K hafa yfir að ráða þremur bátum sem taka frá 30 upp í 48 farþega. Yfirlit yfir áætlunarferðir og verð er á vef Vesturferða.

Undirbúningur að gerð verndaráætlunar fyrir Hornstrandarfriðland hafinn

Hafinn er undibúningur að gerð verndaráætlunar fyrir Hornstrandafriðland. Landverðir Hornstrandafriðlandsins, Jón Björnsson og Jónas Gunnlaugsson, héldu í apríl rýnifund með ýmsum hagsmunaaðilum. Rætt var um gerð verndaráætlunar og hvernig væri best að standa að henni fyrir Hornstrandafriðlandið. Fundargerð rýnifundarins fylgir með frétt þessari.

Nánar ›

Engin bjarndýr í friðlandinu en greinleg ummerki eftir snjósleða á auðri jörð

Hornstrandafriðland 7. maí 2012 - Frá landverði.

 

Í gær voru Hornstrandir yfirflognar með þyrlu Gæslunnar. M.a. var skimað eftir ummerkjum um hvítabirni, snjó og aðstæður á svæðinu og ástandi þess yfirleitt. Engin merki fundust um bjarndýr og áttum við síður von á því, enda nokkur umferð búin að vera um friðlandið. Hinsvegar var talsvert af sleðaförum og ummerki um utanvegaakstur slíkra tækja (farið á snjólausu). Óheimilt er að fara á sleðum um friðlandið. Þá er friðlandið mjög snjólítið, ekki síst að norðanverðu og ófært fyrir sleða, nema ekið sé að hluta á auðri jörð, sem sumir hika reyndar ekki við að gera. Landið er frekar blautt og því viðkvæmt fyrir hverskonar umferð. Áfram verður fylgst með umferð vélsleða og annarra sem um friðlandið fara.

Nánar ›

Ferðir um Hornstrandafriðland snemmsumars

Fréttatilkynning Hornstrandafriðlandið 17. apríl 2012

Það styttist óðfluga í sumarið með tilheyrandi ferðalögum og atgangi. Áætlanir hefjast í Hornstrandafriðlandið í júní n.k., en einhverjir ferðamenn eru á faraldsfæti nyrðra nú þegar og eitthvað um fyrirspurnir.  Nær allan snjó tók upp af svæðinu í lok mars og var snjólaust á láglendi.  Aftur snjóaði í lok Páska, en sá snjór er blautur og hverfur sennilega hratt aftur. Landið er því blautt og mjög viðkvæmt yfirferða. Samkvæmt reglum friðlandsins þurfa nú allir ferðamenn sem fara á svæðið að tilkynna um ferðir sínar. Hornstrandastofa á Ísafirði tekur við slíkum meldingum og er hægt að hafa samband símleiðis í síma 591 2000 (biðja skal um Hornstrandastofu) eða með tölvupósti, netfang hornstrandir@umhverfisstofnun.is

Umrætt ákvæði nær þó ekki til landeigenda, en þeir mega að sjálfsögðu láta vita um ferðir sínar og fá þá meldingar ef eitthvað ber við á svæðinu s.s. ísbjarnarkomur og annað slíkt.  


Meðfylgjandi eru leiðbeiningar um ferðalög í Hornstrandafriðlandið snemmsumars svo og auglýstar reglur svæðisins.

   
Liðna helgi fóru fjölmargir ferðamenn á vélsleðum um friðlandið. Samkvæmt reglum friðlandsins er allur akstur vélknúinna ökutækja óheimill í friðlandinu án heimildar Umhverfisstofnunar.  Þetta ákvæði á einnig við um vélsleða.  Benda má vélsleðamönnum sem leita til ykkar með upplýsingar um snjóalög og annað slíkt á þetta ákvæði.  Hinsvegar geta þeir leitað heimildar Umhverfisstofnunar samkvæmt sömu reglum.

Jón Björnsson