- Hornstrandanefnd
- 24.04.2012
Fréttatilkynning Hornstrandafriðlandið 17. apríl 2012
Það styttist óðfluga í sumarið með tilheyrandi ferðalögum og atgangi. Áætlanir hefjast í Hornstrandafriðlandið í júní n.k., en einhverjir ferðamenn eru á faraldsfæti nyrðra nú þegar og eitthvað um fyrirspurnir. Nær allan snjó tók upp af svæðinu í lok mars og var snjólaust á láglendi. Aftur snjóaði í lok Páska, en sá snjór er blautur og hverfur sennilega hratt aftur. Landið er því blautt og mjög viðkvæmt yfirferða. Samkvæmt reglum friðlandsins þurfa nú allir ferðamenn sem fara á svæðið að tilkynna um ferðir sínar. Hornstrandastofa á Ísafirði tekur við slíkum meldingum og er hægt að hafa samband símleiðis í síma 591 2000 (biðja skal um Hornstrandastofu) eða með tölvupósti, netfang hornstrandir@umhverfisstofnun.is
Umrætt ákvæði nær þó ekki til landeigenda, en þeir mega að sjálfsögðu láta vita um ferðir sínar og fá þá meldingar ef eitthvað ber við á svæðinu s.s. ísbjarnarkomur og annað slíkt.
Meðfylgjandi eru leiðbeiningar um ferðalög í Hornstrandafriðlandið snemmsumars svo og auglýstar reglur svæðisins.
Liðna helgi fóru fjölmargir ferðamenn á vélsleðum um friðlandið. Samkvæmt reglum friðlandsins er allur akstur vélknúinna ökutækja óheimill í friðlandinu án heimildar Umhverfisstofnunar. Þetta ákvæði á einnig við um vélsleða. Benda má vélsleðamönnum sem leita til ykkar með upplýsingar um snjóalög og annað slíkt á þetta ákvæði. Hinsvegar geta þeir leitað heimildar Umhverfisstofnunar samkvæmt sömu reglum.
Jón Björnsson