Loading...

Engin bjarndýr í friðlandinu en greinleg ummerki eftir snjósleða á auðri jörð

Hornstrandafriðland 7. maí 2012 - Frá landverði.

 

Í gær voru Hornstrandir yfirflognar með þyrlu Gæslunnar. M.a. var skimað eftir ummerkjum um hvítabirni, snjó og aðstæður á svæðinu og ástandi þess yfirleitt. Engin merki fundust um bjarndýr og áttum við síður von á því, enda nokkur umferð búin að vera um friðlandið. Hinsvegar var talsvert af sleðaförum og ummerki um utanvegaakstur slíkra tækja (farið á snjólausu). Óheimilt er að fara á sleðum um friðlandið. Þá er friðlandið mjög snjólítið, ekki síst að norðanverðu og ófært fyrir sleða, nema ekið sé að hluta á auðri jörð, sem sumir hika reyndar ekki við að gera. Landið er frekar blautt og því viðkvæmt fyrir hverskonar umferð. Áfram verður fylgst með umferð vélsleða og annarra sem um friðlandið fara.

Nánar ›

Ferðir um Hornstrandafriðland snemmsumars

Fréttatilkynning Hornstrandafriðlandið 17. apríl 2012

Það styttist óðfluga í sumarið með tilheyrandi ferðalögum og atgangi. Áætlanir hefjast í Hornstrandafriðlandið í júní n.k., en einhverjir ferðamenn eru á faraldsfæti nyrðra nú þegar og eitthvað um fyrirspurnir.  Nær allan snjó tók upp af svæðinu í lok mars og var snjólaust á láglendi.  Aftur snjóaði í lok Páska, en sá snjór er blautur og hverfur sennilega hratt aftur. Landið er því blautt og mjög viðkvæmt yfirferða. Samkvæmt reglum friðlandsins þurfa nú allir ferðamenn sem fara á svæðið að tilkynna um ferðir sínar. Hornstrandastofa á Ísafirði tekur við slíkum meldingum og er hægt að hafa samband símleiðis í síma 591 2000 (biðja skal um Hornstrandastofu) eða með tölvupósti, netfang hornstrandir@umhverfisstofnun.is

Umrætt ákvæði nær þó ekki til landeigenda, en þeir mega að sjálfsögðu láta vita um ferðir sínar og fá þá meldingar ef eitthvað ber við á svæðinu s.s. ísbjarnarkomur og annað slíkt.  


Meðfylgjandi eru leiðbeiningar um ferðalög í Hornstrandafriðlandið snemmsumars svo og auglýstar reglur svæðisins.

   
Liðna helgi fóru fjölmargir ferðamenn á vélsleðum um friðlandið. Samkvæmt reglum friðlandsins er allur akstur vélknúinna ökutækja óheimill í friðlandinu án heimildar Umhverfisstofnunar.  Þetta ákvæði á einnig við um vélsleða.  Benda má vélsleðamönnum sem leita til ykkar með upplýsingar um snjóalög og annað slíkt á þetta ákvæði.  Hinsvegar geta þeir leitað heimildar Umhverfisstofnunar samkvæmt sömu reglum.

Jón Björnsson

Aðalfundur Landeigendafélags Sléttu- og Grunnavíkurhrepps

Aðalfundur Landeigendafélags Sléttu- og Grunnavíkurhrepps verður haldinn mánudaginn 30. maí. kl. 17.00 í húsnæði Nýherja að Borgartúni 37. Dagskrá skv. lögum félagsins:

  1. Skýrsla stjórnar.
  2. Lagðir fram endurskoðaðir ársreikningar.
  3. Lagabreytingar.
  4. Stjórnarkjör.
  5. Kjör tveggja endurskoðenda til 2ja ára í senn og tveggja til vara.
  6. Tekin ákvörðun um árgjald til félagsins.
  7. Önnur mál.


Tillaga til breytinga á lögum félagsins, ný 15. grein:

Ákvörðun um slit félagsins verður tekin á aðalfundi félagsins og þarf samþykki ⅔ fundarmanna. Eignir félagsins við slit þess skulu renna til bygginga- og viðhaldssjóða átthagafélaga í Sléttu- og Grunnavíkurhreppum hinum fornu með það að markmiði að viðhalda húsum, kirkjum og kirkjugörðum i þeirra eigu eða umsjá.

Vefur Landeigendafélags Sléttu- og Grunnavíkurhrepps

Landeigendafélagið hefur opnað vef með upplýsingum um félagið. Veffangið er www.hornstrandir.is.

Landeigendafélagið er í samstarfi með Átthagafélögum Sléttuhrepps í Reykjavík og á Ísafirði um vefsvæði. En átthagafélögin nota veffangið www.slettuhreppur.is til að vísa á sama vef.

Á vefnum eru upplýsingar um félagið, s.s. stjórnarmenn, lög félagins, fréttir frá félaginu. Þá er skráningarsíða fyrir nýja félagsmenn og hægt er að senda stjórn fyrirspurn. Þarna eru einnig upplýsingar um Hornstrandanefnd sem er ráðgjafanefnd um málefni friðlandsins, en í henni eiga sæti fulltrúar Landeigendafélagins, Ísafjarðarbæjar og Umhverfisstofnunar.